Samþykktir Hollvinasamtaka Handverks- og hússtjórnarskólans á Hallormsstað

1.gr. Nafn samtakanna

Félagið heitir Hollvinasamtök Handverks- og hússtjórnarskólans á Hallormsstað. Heimili þess og varnarþing er á Hallormsstað.

2.gr. Hlutverk

Tilgangur samtakanna er að styðja við starfsemi Handverks- og hússtjórnarskólans í samráði við stjórn sjálfseignarstofnunarinnar og starfsfólk. Markmið samtakanna er að efla tengsl við samfélagið, fyrrum nemendur skólans og aðra þá er bera hag hans fyrir brjósti. Þá munu samtökin vera vettvangur fyrir kynningu á skólanum, námi og annarri starfsemi á vegum sjálfeignarstofnunarinnar. Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná með:

 • Kynningarstarfsemi á opinberum vettvangi
 • Fjáröflun og fjárstuðningi frá hollvinum, fyrirtækjum og öðrum
 • Öðrum stuðningi við starfsemi skólans í sem víðtækasta skilningi
 • Efla og styrkja starfsemi sem tengist menntun og menningu skólans

3.gr. Félagsaðild

Allir geta verið meðlimir samtakanna; einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og/eða félagasamtök. Hollvinir samtakanna starfa og vinna að markmiðum og hlutverki samkvæmt 2. gr. laganna. Tekjur samtakanna byggjast á frjálsum framlögum félagsmanna eða annarra, fjáröflunum og fjárveitingum. Enginn hollvinur á tilkall til hluta af sjóðum samtakanna eða öðrum eignum þeirra, þó að hann hverfi úr samtökunum eða samtökunum verði slitið.    

4.gr. Aðalfundur

Aðalfund skal halda eigi síðar en í maí ár hvert. Aðalfund skal boða með sannanlegum hætti með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Fundurinn er lögmætur sé löglega til hans boðað. Lögum samtakanna má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögum um lagabreytingar skal skila til stjórnar minnst 15 dögum fyrir aðalfund og skal stjórn kynna breytingartillögur í fundarboði. Aðeins skráðir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi. Til breytinga á lögum samtakanna þarf 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi.

Dagskrá aðalfundar:

 1. Skýrsla formanns og stjórnar
 2. Reikningar lagðir fram til afgreiðslu
 3. Starfsáætlun ársins
 4. Lagabreytingar
 5. Kosning stjórnar
 6. Kosning tveggja skoðunarmanna
 7. Önnur mál

 5.gr. Stjórn

Stjórn félagsins skal skipuð þremur aðalmönnum og tveimur til vara. Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund og skal skipuð formanni og meðstjórnendum. Stjórn skal kosin til tveggja ára í senn. Einnig skal kjósa tvo skoðunarmenn.

Í verkahring stjórnar er:

 • Að vinna að markmiðum samtakanna milli aðalfunda
 • Að varðveita félagaskrá og skrá yfir styrkaraðaila
 • Að annast kynningarstarf og styðja við starfsemi skólans.
 • Að vera í góðu samstarfi við skólanefnd og starfsfólk skólans

6.gr. Fjármál

Reikningsár samtakanna er almanaksárið. Reikningar skulu lagðir fram á aðalfundi, endurskoðaðir og undirritaðir af stjórn samtakanna.

7.gr. Slit Hollvinasamtakanna

Ákvörðun um slit samtakanna verður aðeins tekin á aðalfundi með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Verði samtökin lögð niður skal eignum þess ráðstafað til Handverks- og hússtjórnarskólans á Hallormsstað. 

Samþykkt á stofnfundi þann 27. apríl 2017

Hallormsstað   pdfSamþykktin stofnfundar á pdf