Matreiðsla

Matreiðsla I

Í áfanganum læra nemendur að meðhöndla og matreiða úr ýmiss konar hráefnum, s.s. kjöti, fiski, grænmeti, ávöxtum og kornvörum. Einnig kynnast nemendur nýtingu á hráefni úr umhverfinu. Kenndar verða grunnaðferðir í matreiðslu, s.s. steikingu, suðu og bakstur. Fjallað verður um mikilvægi réttrar næringar og manneldismarkmiðin höfð að leiðarljósi í matreiðslu. Kennd er notkun áhalda og tækja í matreiðslu og meðferð þeirra. Kenndir eru borðsiðir og kennt að leggja á borð ásamt frágang eftir matmálstíma. Lögð er áhersla á mikilvægi hreinlætis, persónulegs og í eldhúsi. Nemendur læra að skipuleggja vinnu og verkefni sín í eldhúsinu. Meginmarkmið áfangans er að nemendur ástundi nám sitt vel, sýni samvinnu og tillitsemi og auki sjálfstæði sitt við matreiðslu á einföldum máltíðum.

Matreiðsla II

Í áfanganum læra nemendur að matreiða flóknari rétti sem m.a. eru hafðir til hátíðabrigða. Kennt er að taka á móti gestum, leggja á borð, stilla upp hlaðborði og framreiða. Þá læra nemendur að skipuleggja vinnu sína í eldhúsi með tilliti til samvinnu og verkaskiptinga. Kennd er tækni við flóknari matreiðslu og notkun á ýmsum áhöldum og tækjum sem því fylgir. Fjallað verður um nýtingu hráefna og lögð áhersla á að nemendur kynnist fjölbreyttum matvælum. Kennt er að nýta sér upplýsingar á umbúðum matvæla. Nemendur læra að tileinka sér hreinlæti við alla matargerð og snyrtimennsku við framreiðslu. Nemendur kynnast hefðum og venjum í matargerð ásamt sérfæði og framandi matargerð. Meginmarkmið áfangans er að nemendur auki sjálfstæði sitt við matreiðslu á flóknari máltíðum, geti tekið á móti gestum og metið innkaup á hráefni og stærð máltíðar eftir fjölda gesta. Auk þess er lögð áhersla á að nemendur ástundi nám sitt vel, sýni samvinnu og tillitsemi.

 • m1
 • m10
 • m11
 • m12
 • m13
 • m14
 • m15
 • m16
 • m2
 • m3
 • m4
 • m5
 • m6
 • m7
 • m8
 • m9

logolinur nyr