Námið

Námið samanstendur af textílgreinum og matarhönnun. Skólinn byggir á áralangri reynslu þar sem menningararfur og nútímatækni fara saman.

Í textílgreinum er lögð áhersla á vefnað, útsaum, prjón, hekl og fatasaum þar sem fléttast fræðsla um vefjarefnarfræði, jurtalitun, sjálfbærni og endurvinnslu efna. Námið byggir á samþættingu milli greina og hönnunarhugsun þar sem farið er í gunnaðferðir og flóknari tækniatriði. Verkefnin nýtast í ferilmöppu til umsóknar til framhaldsnáms í textílhönnun. 

Í matarhönnun er unnið með austfirskt hráefni frá fyrstu hendi og fá nemendur tækifæri til að skapa og hanna undir leiðsögn matreiðslumeistara og gestakennara. Farið er vítt um Austurland og fá nemendur að kynnast hreinni afurð í sínu náttúrlega umhverfi. Lögð er áhersla á sjálfbærni og nýtingu hráefna. Gamlar íslenskar matreiðsluaðferðir og nútíma eldamennska taka höndum saman þar sem nemendinn fær einstakt tækifæri til að vinna með hugmynd til lokaafurðar. Farið er yfir gæðaeftirlit í matreiðslu, næringarfræði hráefna og að þekkja uppruna hráefna.     

Námið hentar vel ungu fólki sem stefnir í skapandi greinar eða matreiðslu. Skólinn býður upp á einnar annar nám, einingabært á framhaldsskólastigi. Vinnuaðstaða í skólanum er mjög góð og hafa nemendur fullan aðgang að kennslustofum á námstíma. Skólahúsnæðið er gamalt og ekki með aðgengi fyrir mikið hreyfihamlaða einstaklinga.