Handverks- og hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

HússtjórnarskólinnMeginhlutverk Handverks- og hússtjórnarskólans á Hallormsstað er að bjóða upp á heildstætt og hagnýtt nám sem nýtist nemendum í daglegu lífi og til frekara náms. Hann starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 og námið því einingabært á framhaldsskólastigi. Skólinn stuðlar að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi.

Stefna hans er að tryggja breiðum hópi fólks tækifæri til náms í litlu skólasamfélagi með persónulegri þjónustu, áherslu á verklegt nám með fjölbreyttum kennsluháttum og námsmati. Námið byggir á siðum og venjum frá fyrri tíð en aðlagar sig að nútímatækni og stefnum og straumum í þjóðfélaginu.

Skólinn býr nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Grunnþættir menntunar og lykilhæfni fléttast inn í allt skólastarfið. Leitast er við að efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust, umburðarlyndi og samskiptahæfni nemenda.

Á heimavist skólans þar sem 22 ungmenni búa saman í eina önn, gefst tækifæri til að örva gagnkvæma virðingu fyrir lífi, skoðunum og eigum annarra, en jafnframt virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfinu sem er sameign okkar allra.

Lögð er áhersla á samþættingu námsgreina þar sem nemendum eru falin fjölmörg ólík verkefni utan hefðbundinna kennslustunda og eru því í stöðugri starfsþjálfun á önninni, s.s. persónulegri umhirðu og umgengni, húsþrifum, umsjón með mötuneyti og ábyrgð á heimavist skólans.

Nemendur þjálfast í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti, gagnrýnni hugsun og að setja sér markmið. Einnig eflir skólinn færni nemenda í íslensku máli, kennir þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetur til þekkingarleitar og upplýstrar umræðu.

Skólinn ýtir undir andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði nemenda og stuðlar að aukinni þekkingu þeirra á umhverfi sínu og virðingu fyrir því.